Þrúgan Viognier var hér á árum áður hvorki útbreidd né áberandi á flöskumiðum enda var hún aðallega ræktuð í norðanverðum Rónar-dalnum þar sem gerð voru úr henni sértæð hvítvín (td hið fræga Chateau Grillet sem ég hef reyndar bara smakkað einu sinni og var svosem ekkert sérstaklega eftirminnilegt) eða henni var blandað í hin tannísku og seinþroska Côte-Rôtie og Hermitage-vín til að gera þau ögn drekkanlegri á barnsaldri. En fyrir svosem tveimur áratugum fóru menn að rækta þessa þrúgu víðar í Frakklandi (aðallega í Languedoc, einsog þetta vín) og reyndar víðar um heim td í Kaliforníu þegar allar konur voru orðnar dauðleiðar á að súpa Chardonnay. Nú á dögu sést þrúgan oftar á flöskumiðum og í flestum tilfellum er verið að gera þægileg og mjúk hversdagsvín, enda er lítil sýra helsti gallinn við þessa annars ágætu þrúgu.

Þetta vín frá Gérard Bertrand er strágyllt að lit með bleika tóna og feita og mjúka angan af sætkenndum ávöxtum og kryddgrösum. Þarna má finna peru, gula melónu, ferskju, mjólkurfitu, agúrku, kerfil, niðursoðnar mandarínur og sæta sítrónu.

Í munni er það furðu sýruríkt (miðað við Viognier), með töluverða seigju og minnir dálítið á Pinot Gris frá Alsace. Þarna má smakka sítrónu, niðursoðna peru, gula melónu, ferskju og í lokin eru þarna beiskir tónar af rauðu greipaldin. Ljúft og skemmtilega matarvín en raknar full snemma upp til að teljast afburða gott. Það er fínt með bragðmiklu ljósu kjöti, feitum fiskréttum, ýmsum mjúkum ostum og pasta.

Verð kr. 2.369.- Frábær kaup.

Norton-víngerðin ætti að vera ykkur kunn, því að vín frá henni hafa fengist hér í meira en áratug og þetta vín hér er amk gamall kunningi minn. Það býr yfir þéttum og gegnheilum, fjólurauðum lit og ilm af sætum og sultuðum blá- og aðalbláberjum í bland við mintu, plómu, sólberjahlaup, eik og rauð ber. Það tekur svolitla stund að opna sig og mætti vera flóknara í nefinu en í munni er það með töluverða fyllingu, þurrt, þétt og inniheldur gnótt af fínlegum tannínum. Það hefur góða sýru, er unglegt og með góða lengd sem ætti að gera það mjög heppilegt með matnum. Það má finna glefsur af sólberjahlaupi, aðalbláberjasultu, vanillu, plómu, svörtum pipar og leirkenndum jarðartónum. Alveg hreint úrvals vín frá Argentínu sem fer vel með rauðu kjöti hverskonar og jafnvel einhverri villibráð.

Verð kr. 2.995.- Mjög góð kaup.

Eitt af bestu vínum síðasta árs var án nokkurs vafa Altos Crianza, sem ég veit að þið hafið tekið opnum örmum og er vonandi komið til að vera. Fyrir nokkrum mánuðum kom síðan í hillurnar stóra systir þess, Altos Reserva sem, einsog búast mátti við, með hælana þar sem Crianzan hefur tærnar.

Ég er sumsé einlægur aðdáandi þessarar víngerðar og finnst vínin sem frá henni koma sameina á einstakan hátt bæði framsækinn og hefðbundinn stíl Rioja-vína þannig að útkoman er flókin, ljúffeng og matarvæn. Þetta er aldeilis sérlega glæsilegt vín sem á auðvitað heima á veisluborðum okkar.

Það er, rétt einsog Crianzan, 100% Tempranillo og býr yfir afar þéttum og gegnheilum fjólurauðum lit og nefið er þroskað og töluvert opið með flóknum glefsum sem gaman er að velta fram og aftur. Þarna er töluverð vanilla (enda er vínið þroskað í tvö ár í frönskum og bandarískum eikartunnum), dökk og rauð sultuð ber, kókos, súkkulaði, plóma, lím, balsam, þurrkaðir ávextir, möndlumassi, mómold og apelsínubörkur.

Í munni er það samþjappað og bragðmikið, þurrt, langvarandi og sýruríkt með vænan skammt af mjúkum tannínum. Á sama tíma er það í frábæru jafnvægi með fínlegan glæsileika og aristókratiska byggingu. Þarna eru dökk og rauð sultuðu ber, plóma, vanilla, þurrkaður appelsínubörkur, balsam, súkkulaðihúðuð kirsuber, steinefni og kókos. Vín sem endist í 3-10 ár í viðbót. Hafið þetta með einhverri góðri nautateik eða villibráð. Örugglega fínt með jólamatnum.

Verð kr. 3.750.- Frábær kaup.

Ég hef áður skrifað um Cabernet Sauvignon og Sauvignon Blanc í þessari línu frá víngerðinni Norton í Mendoza í Argentínu og hér er Malbec-vínið þeirra og það er bara fínt líka. Kannski það besta?

Það hefur þéttan og gegnheilan rauðfjólubláan lit og nefið er blanda rauðum og dökkum sultuðum berjum, apótekaralakkrís, sveskjum í Armagnac, vanillu, heybagga, plómu, mómold og stálplötu.

Það hefur góða meðalfyllingu, er ungt, þurrt og með ferska sýru, mjúk tannín og ágæta endingu þótt það skorti kannski flækjuna sem maður gjarnan vill fá líka. Það má finna krækiber, rauð sultuð ber, papriku, vanillu, pipar og málm. Prýðilegt hversdagsrauðvín sem er fínt með flestu kjötmeti, bragðmeiri pottréttum og pasta.

Verð kr. 2.395.- Mjög góð kaup.

Ég hef skrifað allnokkrum sinnum um vín úr Bicicleta-línunni frá Cona Sur og þau hafa öll fengið hjá mér þrjár og hálfa stjörnu, enda eru þar á ferðinni afar vel gerð og matarvæn vín á hreint framúrskarandi góðu verði.

Gewurztraminer þekkjum við helst frá Alsace í Frakklandi þótt ýmislegt bendi til þess að þrúgan sé upprunin í Ölpunum og hún á sér trygga aðdáendur þótt sumum finnist hún full yfirgengileg á köflum. Þetta fína gler er djúp-gyllt að lit með koparrauða tóna og dæmigerða og nokkuð opna angan af múskat-þrúgum, lyche, niðursoðnum mandarínum, austurlenskum ávöxtum, fresíum, snyrtivörum og mjólkurfitu. Þetta er kunnuglegur og dálítið ágengur ilmur og býsna sætur.

Í munni er það nokkuð bragðmikið með góða sýru en raknar aðeins of snemma upp en er annars vel gert og matarvænna en mörg Gewurztraminer-vín frá meginlandi Evrópu. Þarna má finna lyche, mandarínu, greipaldin og niðursoðinn austurlenskan ávaxtakokteil. Í lokin eru þarna beiskir tónar sem koma í veg fyrir að það verði of þunglamalegt. Hafið með allskyns vel krydduðum mat eða reyktum. Sumar kæfur og unnar kjötvörur eru ekki sem verstar með svona vínum.

Verð kr. 1.927.- Mjög góð kaup.

Eitt sinn hét þetta ágæta vínsamlag Pfaffenheim, einsog þið munið, en má nú vegna furðulegra lagaákvæða ekki bera sama heiti og þorpið. En hvað um það, þetta vín er ágætis dæmi um hvítvín frá Alsace sem blandað er úr fleiri en einni eðalþrúgu og gæti því sjálfsagt kallast Edelswicker.Það hefur gylltan lit og rétt tæplega meðalopna angan af peru, sítrónu, hvítum blómum, perubrjóstsykri, ananas, gulri melónu og lyche.

Þetta er ljúf og feitlagin angan sem sver sig í ætt við Alsace og það er einnig augljós seigja innan á glasbarminum.Í munni er það mjúkt, létt og má ekki vera sýruminna til að lifna reglulega vel við. Það er rétt tæplega meðalbragðmikið með búttaðan keim af peru, melónu, lyche, ananas og mandarínu. Ögn meiri sýra hefði skilað því fjórum stjörnum því ávöxturinn sjálfur er býsna góður. Hafið með allskonar léttum mat, fiski, bökum og ljósu pasta.

Verð kr. 1.999.- Mjög góð kaup.

Ég ætla að leiðrétta mig aftur að Finca La Colonia er ekki einfaldasta og ódýrasta línan frá Bodegas Norton en engu að síður er þetta vel frambærilegt vín sem gott er að bragða á. Það hefur dimman plómurauðan lit og meðalopna angan af plómu, rauðum berjum, sólberjasultu, kirsuber og grænni papriku. Þetta er einfaldur og dæmigerður ilmur en aðlaðandi.

Í munni er það meðalbragðmikið með góða sýru en svolítið stutt í annan endan sem dregur það niður. Þarna má finna sólber, kirsuber, plómu og papriku. Einfalt og prýðilegt hversdagsvín sem fer vel með rauðu kjöti, pasta og pottréttum.

Verð kr. 2.395.- Mjög góð kaup.

Sólúrs-vínekran í Wehlen er ein af þessum framúrskarandi góðu í Móseldalnum þar sem Riesling-þrúgan gefur af sér einhver bestu hvítu vín jarðarkringlunnar og í höndunum á jafn góðum víngerðarmanni og Ernst Loosen má alltaf búast við frábærri flösku.

Þetta vín er gulgrænt að lit og inniheldur vott af kolsýru (sem dregur síður en svo úr gæðum þess). Í nefinu sem er unglegt og meðalopið má finna vínber (!), sítrónu, læm, koppafeiti, rykuga jörð, hvít blóm og grænar kryddjurtir.
Í munni er það hálfþurrt, með töluverða sýru (og kolsýru að auki), er ferskt og líflegt með þennan óviðjafnanlega þokka sem einkennir Riesling frá góðum svæðum. Það má greina í því epli, sítrónu, vínber, jörð og rautt greipaldin. Langlíft og glæsilegt vín sem vantar bara einn punkt að fá hálfa stjörnu í viðbót. Gott eitt og sér og með allskyns fiskmeti, reyktum fiski og jafnvel asískum brögðum. Fjölhæft og glæsilegt vín.

Verð kr. 2.959.- Mjög góð kaup.

Þetta er eitt af fjölmörgum vínum úr smiðju Gérard Bertrand, þessa fyrrum rúgbí-leikara sem ákvað að taka fjölskylduvíngerðina föstum tökum og hefur svo sannarlega náð til neytenda, ekki bara í Suður-Frakklandi (þar sem varla er þverfótað fyrir hinum og þessum vínum frá honum í búðum) heldur einnig í Norður Evrópu og svo auðvitað hér á landi.

Það er einnig til rautt Domaine de Villemajou en þetta er hvítt, blandað úr staðbundnum Languedoc-þrúgum þar sem Grenache Blanc spilar áræðanlega stóra rullu. Það hefur strágylltan lit og meðalopna angan þar sem finna má peru, perubrjóstsykur, sætan sítrus, steinefni, ananas, kryddjurtir og fitu. Þetta er ekkert yfirmáta flókin ilmur en hann er aðlaðandi og upprunalegur.

Í munni er það meðalbragðmikið, sýruríkt og ljúft en skortir aðallega endingu til að skora hærra. Það hefur keim af greipaldini, læm, peru, steinefnum (jafnvel salti), appelsínu, mandarínu og fitu. Fínt með fiskinum, salötum, eggjabökum allskonar og hinum og þessum forréttum.

Verð kr. 3.199.- Ágæt kaup.

Ég sagði ykkur ósatt um daginn að La Colonia væri einfaldasta og ódýrasta vínið frá Norton og leiðréttist það hérmeð! Að því sögðu þá ætla ég að fjalla um Malbec frá Norton í Reserva-línunni þeirra, vín sem margir kannast við enda hefur það verið til sölu í vínbúðunum um langt skeið.

Malbec er þessi sérstæða Bordeaux-þrúga sem hefur átt mikilli velgengni að fagna í Argentínu enda virðast skilyrði fyrir hana vera óvenju góð þarna í háfjallalofti Andesfjallanna. Norton notar í þetta vín þrúgur frá Mendoza og það hefur mjög þéttan rauðfjólubláan lit, og ríflega meðalopna angan sem er ungleg og þétt. Það má greina þarna kirsuberjabaka, aðal- og bláberjasulta, lakkrís, kryddgrös (minnir mig helst á Jägermeister), gúmmí og fínleg frönsk eik.

Í munni er það bragðmikið, ungt og gegnheilt með töluverða sýru, góða endingu, mjúk og mikil tannín og sætuvott af sólríkum vaxtartíma en er samt sem áður þurrt og vel byggt. Þar má finna kirsuber, hindber, jarðarberjasultu, aðalbláber, kryddgrös, þurrkaðan appelsínubörk og eik. Fínasta vín með íslensku lambi, nauti og jafnvel villibráð.

Verð kr. 2.995.- Mjög góð kaup.

Subcategories