Við ættum auðvitað að hafa austurrísk vín miklu oftar í glasinu en einhverra hluta vegna hefur það gengið frekar illa að fá Íslendinga til að drekka góð vín frá Austurríki. Sumpart vegna þess að úrval þeirra er afar takmarkað (en úrval í vínbúðunum er ykkur neytendum að kenna, hafið það í huga).
Austurríki á nokkrar einkennisþrúgur og þeirra þekktust er án vafa sú hvíta Grüner Veltliner sem getur við góð skilyrði gefið af sér einhver mest spennandi hvítvín sem finna má í þessari ágætu veröld.

Hubert Sandhofer hefur átt vín hér í vínbúðum í nokkur ár og það er gleðiefni að nú skuli fást aftur tvö vín frá honum. Hann gerir sín vín innan hins skilgreinda víngerðarsvæðis Burgenland Neusiedlersee og ég er bara nokkur ánægður með það.

Það hefur ljós-strágulan lit og rétt tæplega meðalopna angan af sítrónu, steinefnum, pipar, gulri melónu, jasmín, mjöli og grænum grösum. Þetta er ilmur sem minnir dálítið á Chablis.

Það er þurrt í munni með góða sýru og fínt jafnvægi. Það er meðalbragðmikið og lifir vel, er ferskt og létt með keim af sítrónu, mjólkursýru (helst að gamla góða KEA-skyrið komi upp í hugann), peru, blóðappelsínu, melónu og pipar. Líklega besta útgáfa af þessu víni frá Hubert sem ég hef smakkað hingaðtil. Hafið með salötum, allskonar fiskréttum, ljósu pasta og bara eitt og sér. Vín úr Grüner Veltliner eru að jafnaði afar fjölhæf með mat. Ekki spillir að myndin á miðanum er eftir íslensku listakonuna Kristínu Gunnlaugsdóttur.

Verð kr. 2.326.- Mjög góð kaup.