Ég sagði ykkur ósatt um daginn að La Colonia væri einfaldasta og ódýrasta vínið frá Norton og leiðréttist það hérmeð! Að því sögðu þá ætla ég að fjalla um Malbec frá Norton í Reserva-línunni þeirra, vín sem margir kannast við enda hefur það verið til sölu í vínbúðunum um langt skeið.

Malbec er þessi sérstæða Bordeaux-þrúga sem hefur átt mikilli velgengni að fagna í Argentínu enda virðast skilyrði fyrir hana vera óvenju góð þarna í háfjallalofti Andesfjallanna. Norton notar í þetta vín þrúgur frá Mendoza og það hefur mjög þéttan rauðfjólubláan lit, og ríflega meðalopna angan sem er ungleg og þétt. Það má greina þarna kirsuberjabaka, aðal- og bláberjasulta, lakkrís, kryddgrös (minnir mig helst á Jägermeister), gúmmí og fínleg frönsk eik.

Í munni er það bragðmikið, ungt og gegnheilt með töluverða sýru, góða endingu, mjúk og mikil tannín og sætuvott af sólríkum vaxtartíma en er samt sem áður þurrt og vel byggt. Þar má finna kirsuber, hindber, jarðarberjasultu, aðalbláber, kryddgrös, þurrkaðan appelsínubörk og eik. Fínasta vín með íslensku lambi, nauti og jafnvel villibráð.

Verð kr. 2.995.- Mjög góð kaup.