Þetta er eitt af fjölmörgum vínum úr smiðju Gérard Bertrand, þessa fyrrum rúgbí-leikara sem ákvað að taka fjölskylduvíngerðina föstum tökum og hefur svo sannarlega náð til neytenda, ekki bara í Suður-Frakklandi (þar sem varla er þverfótað fyrir hinum og þessum vínum frá honum í búðum) heldur einnig í Norður Evrópu og svo auðvitað hér á landi.

Það er einnig til rautt Domaine de Villemajou en þetta er hvítt, blandað úr staðbundnum Languedoc-þrúgum þar sem Grenache Blanc spilar áræðanlega stóra rullu. Það hefur strágylltan lit og meðalopna angan þar sem finna má peru, perubrjóstsykur, sætan sítrus, steinefni, ananas, kryddjurtir og fitu. Þetta er ekkert yfirmáta flókin ilmur en hann er aðlaðandi og upprunalegur.

Í munni er það meðalbragðmikið, sýruríkt og ljúft en skortir aðallega endingu til að skora hærra. Það hefur keim af greipaldini, læm, peru, steinefnum (jafnvel salti), appelsínu, mandarínu og fitu. Fínt með fiskinum, salötum, eggjabökum allskonar og hinum og þessum forréttum.

Verð kr. 3.199.- Ágæt kaup.