Eitt sinn hét þetta ágæta vínsamlag Pfaffenheim, einsog þið munið, en má nú vegna furðulegra lagaákvæða ekki bera sama heiti og þorpið. En hvað um það, þetta vín er ágætis dæmi um hvítvín frá Alsace sem blandað er úr fleiri en einni eðalþrúgu og gæti því sjálfsagt kallast Edelswicker.Það hefur gylltan lit og rétt tæplega meðalopna angan af peru, sítrónu, hvítum blómum, perubrjóstsykri, ananas, gulri melónu og lyche.

Þetta er ljúf og feitlagin angan sem sver sig í ætt við Alsace og það er einnig augljós seigja innan á glasbarminum.Í munni er það mjúkt, létt og má ekki vera sýruminna til að lifna reglulega vel við. Það er rétt tæplega meðalbragðmikið með búttaðan keim af peru, melónu, lyche, ananas og mandarínu. Ögn meiri sýra hefði skilað því fjórum stjörnum því ávöxturinn sjálfur er býsna góður. Hafið með allskonar léttum mat, fiski, bökum og ljósu pasta.

Verð kr. 1.999.- Mjög góð kaup.