Ég hef skrifað allnokkrum sinnum um vín úr Bicicleta-línunni frá Cona Sur og þau hafa öll fengið hjá mér þrjár og hálfa stjörnu, enda eru þar á ferðinni afar vel gerð og matarvæn vín á hreint framúrskarandi góðu verði.

Gewurztraminer þekkjum við helst frá Alsace í Frakklandi þótt ýmislegt bendi til þess að þrúgan sé upprunin í Ölpunum og hún á sér trygga aðdáendur þótt sumum finnist hún full yfirgengileg á köflum. Þetta fína gler er djúp-gyllt að lit með koparrauða tóna og dæmigerða og nokkuð opna angan af múskat-þrúgum, lyche, niðursoðnum mandarínum, austurlenskum ávöxtum, fresíum, snyrtivörum og mjólkurfitu. Þetta er kunnuglegur og dálítið ágengur ilmur og býsna sætur.

Í munni er það nokkuð bragðmikið með góða sýru en raknar aðeins of snemma upp en er annars vel gert og matarvænna en mörg Gewurztraminer-vín frá meginlandi Evrópu. Þarna má finna lyche, mandarínu, greipaldin og niðursoðinn austurlenskan ávaxtakokteil. Í lokin eru þarna beiskir tónar sem koma í veg fyrir að það verði of þunglamalegt. Hafið með allskyns vel krydduðum mat eða reyktum. Sumar kæfur og unnar kjötvörur eru ekki sem verstar með svona vínum.

Verð kr. 1.927.- Mjög góð kaup.