Eitt af bestu vínum síðasta árs var án nokkurs vafa Altos Crianza, sem ég veit að þið hafið tekið opnum örmum og er vonandi komið til að vera. Fyrir nokkrum mánuðum kom síðan í hillurnar stóra systir þess, Altos Reserva sem, einsog búast mátti við, með hælana þar sem Crianzan hefur tærnar.

Ég er sumsé einlægur aðdáandi þessarar víngerðar og finnst vínin sem frá henni koma sameina á einstakan hátt bæði framsækinn og hefðbundinn stíl Rioja-vína þannig að útkoman er flókin, ljúffeng og matarvæn. Þetta er aldeilis sérlega glæsilegt vín sem á auðvitað heima á veisluborðum okkar.

Það er, rétt einsog Crianzan, 100% Tempranillo og býr yfir afar þéttum og gegnheilum fjólurauðum lit og nefið er þroskað og töluvert opið með flóknum glefsum sem gaman er að velta fram og aftur. Þarna er töluverð vanilla (enda er vínið þroskað í tvö ár í frönskum og bandarískum eikartunnum), dökk og rauð sultuð ber, kókos, súkkulaði, plóma, lím, balsam, þurrkaðir ávextir, möndlumassi, mómold og apelsínubörkur.

Í munni er það samþjappað og bragðmikið, þurrt, langvarandi og sýruríkt með vænan skammt af mjúkum tannínum. Á sama tíma er það í frábæru jafnvægi með fínlegan glæsileika og aristókratiska byggingu. Þarna eru dökk og rauð sultuðu ber, plóma, vanilla, þurrkaður appelsínubörkur, balsam, súkkulaðihúðuð kirsuber, steinefni og kókos. Vín sem endist í 3-10 ár í viðbót. Hafið þetta með einhverri góðri nautateik eða villibráð. Örugglega fínt með jólamatnum.

Verð kr. 3.750.- Frábær kaup.