Þrúgan Viognier var hér á árum áður hvorki útbreidd né áberandi á flöskumiðum enda var hún aðallega ræktuð í norðanverðum Rónar-dalnum þar sem gerð voru úr henni sértæð hvítvín (td hið fræga Chateau Grillet sem ég hef reyndar bara smakkað einu sinni og var svosem ekkert sérstaklega eftirminnilegt) eða henni var blandað í hin tannísku og seinþroska Côte-Rôtie og Hermitage-vín til að gera þau ögn drekkanlegri á barnsaldri. En fyrir svosem tveimur áratugum fóru menn að rækta þessa þrúgu víðar í Frakklandi (aðallega í Languedoc, einsog þetta vín) og reyndar víðar um heim td í Kaliforníu þegar allar konur voru orðnar dauðleiðar á að súpa Chardonnay. Nú á dögu sést þrúgan oftar á flöskumiðum og í flestum tilfellum er verið að gera þægileg og mjúk hversdagsvín, enda er lítil sýra helsti gallinn við þessa annars ágætu þrúgu.

Þetta vín frá Gérard Bertrand er strágyllt að lit með bleika tóna og feita og mjúka angan af sætkenndum ávöxtum og kryddgrösum. Þarna má finna peru, gula melónu, ferskju, mjólkurfitu, agúrku, kerfil, niðursoðnar mandarínur og sæta sítrónu.

Í munni er það furðu sýruríkt (miðað við Viognier), með töluverða seigju og minnir dálítið á Pinot Gris frá Alsace. Þarna má smakka sítrónu, niðursoðna peru, gula melónu, ferskju og í lokin eru þarna beiskir tónar af rauðu greipaldin. Ljúft og skemmtilega matarvín en raknar full snemma upp til að teljast afburða gott. Það er fínt með bragðmiklu ljósu kjöti, feitum fiskréttum, ýmsum mjúkum ostum og pasta.

Verð kr. 2.369.- Frábær kaup.