Kastilíu-héraðið á Spáni er að verða heilmikill suðupottur þar sem tækifæri eru næg til að gera nútímaleg vín byggð á traustum, hefðbundnum grunni. Þetta á sérstaklega við um rauðvín enda eiga Spánverjar fleiri rauðar þrúgur en hvítar sem hægt er að leika sér með.Þetta hér er úr þrúgunni Tempranillo og hefur djúpan rauðfjólubláan lit og tæplega meðalopna angan sem er býsna ung og fjólublá en þarna má finna kirsuber, bláber, plómu og eik.

Þetta er fremur einfaldur ilmur, sætkenndur og dökkur og í munni er það meðalbragðmikið, þurrt með góða sýru en tannínin eru í hrjúfari kanntinum sem dregur það aðeins niður. Í munninum eru áberandi rauð og dökk ber, plómur og lakkrís. Einfalt hversdagsvín en það fer vel með kjötkenndum og tómatbaseruðum réttum.

Verð kr. 1.890.- Mjög góð kaup.

Nero d’Avola er ein af einkennisþrúgum Sikileyjar og er, eins og margar þrúgur sem upprunar eru við sunnan og austanvert Miðjarðarhafið, býsna þétt og stór um sig en skortir stundum fínleika og byggingu en þar kemur Syrah til sögunnar (sem markaðsdeild Pasqua kýs að kalla Shiraz uppá Ástralska vísu, kannski til að höfða betur til stórmarkaðsverslanna Norður-Evrópu).

Það hefur meðaldjúpan, granatrauðan lit og rétt ríflega meðalopinn ilm af rauðum berjum (kirsu,- hind- og jarðarberjum), kryddum einsog kanil, negul og pipar, krækiberjasultu, lakkrís, súkkulaði og fjólum.Í munni er það ríflega meðalbragðmikið með ágæta sýru en ögn hrjúf tannín og það raknar full hratt upp í lokin. Annars eru þarna rauð og sultuð ber (hind-, jarðar- og kirsuber), negull, lakkrís, lyng og plómur. Einfalt en ekki svo slæmt hversdagsvín sem sver sig í ætt við Nýja Heiminn. Hafið með kjötkenndum og bragðmeiri hversdagsmat þar sem td tómatar koma við sögu.

Verð kr. 1.990.- Góð kaup.

Það kemur alltaf dálítið á óvart að Riesling skuli hafa náð þéirri útbreiðslu í Ástralíu sem raun ber vitni, kannski er það vegna þess hve margir þýskir innflytjendur settust það að í lok nítjándu aldar (afkomendur þeirra eru m.a. Gramp og Lehmann) og kannski er það vegna þess að Riesling heldur sýrunni vel þrátt fyrir hinn háa hita á sumum svæðum.

Þessi Riesling kemur frá Suð-Austur Ástralíu og hefur ljós-gulgrænan lit og meðalopna, suðræna Riesling-angan af sítrónu, læmi, pómeló, seinolíu, grænum eplum, steinolíu og strokleðri. Þetta er sætkennd angan og þrúguilmurinn kemur vel fram.Í munni er það þurrt, sýruríkt og létt en með góða lengd en skortir smá þéttleika í miðjunni til að lyfta því upp. Þarna má finna sítrusávexti, steinefni og græn epli. Riesling er ein af bestu hvítvínsþrúgum þessa heims og á meiri athygli skilið. Hafið með austurlenskum mat, krydduðum fiskréttum og ljósu kjöti.

Verð kr. 1.799.- Góð kaup.

Þessi lífræni Pinot Noir kemur frá Colchagua-dalnum í Chile og hefur þéttan en tæplega meðaldjúpan, kirsuberjarauðan lit. Það eru áberandi rauð ber í nefinu, jarðarber og hindber en líka sólber, bökuð rauðrófa, heybaggi, lakkrís og steinolía (sem maður finnur oftar í Riesling).

Það er meðalbragðmikið og hefur fína sýru, er þurrt og dæmigert en því má helst finna til foráttu er að það er full extrakterað (einsog Nýjaheims Pinot Noir eru stundum og þá geta tannín orðið dálítið græn á köflum) og eins er alkóhólið aðeins of áberandi. Að því sögðu er þetta bara hið þokkalegasta vín. Þarna eru jarðar- og hindber, bökuð rauðrófa, plóma, sólber og Nýjaheimslegur evkalytus. Gott með feitum fiski eða ljósu kjöti.

Verð kr. 2.190.- Góð kaup.

Enn á ný kemst vín frá Spáni hátt á listan hjá mér yfir það besta sem okkur stendur til boða í Vínbúðunum og að þessu sinni kemur vínið frá Navarra á Norður-Spáni. Það er blandað úr þrúgunum Tempranillo, Merlot og Syrah og takið eftir orðinu Pago, þarna í upphafi, sú skilgreining er nú fyrir bestu vínekrur Spánar, einskonar Grand Cru (þetta er þó umdeilt, svo því sé haldið til haga) og hafa einungis um 100 víngarðar fengið þá upphefð að geta kalla sig Pago.

Þetta vín býr yfir mjög þéttum kirsuberjarauðum lit og hefur ríflega meðalopið nef þar sem finna má sultuð rauð ber, aðalbláberjasultu, vanillu, kaffi, mómold, súkkulaði, lakkrís, þurrkaðan appelsínubörk, pipar og marsipan. Ferlega flott og ungleg lykt sem er síbreytileg og heillandi.

Í munni er það bragðmikið, þétt og dökkt með töluverða sýru og mikið af mjúkum tannínum úr ávexti og tunnu. Það er þurrt en þó er ávöxturinn sætur og þroskaður og þarna eru glefsur af bláberjasultu, kirsuberjum, þurrkuðum appelsínuberki, vanillu, Earl-Grey tei og súkkulaði. Framúrskarandi skemmtilegt vín sem er vel matarvænt þrátt fyrir stærðina. Hafið með villibráð og bragðmiklum en einföldum steikum. Verðið er auðvitað bara útí hött. Ein af 10 bestu kaupunum í vínbúðunum þessa stundina.

Verð kr. 2.490.- Frábær kaup.

Distell nefnist afar stórt suður-afrískt fyrirtæki og undir þess hatti eru margar nafntogaðar víngerðir, meðal annara Drosdty-Hof sem ég trúi að flestir lesendur kannist við enda hafa mörg vín frá þeim verið á boðstólnum í gegnum tíðina. Þetta hér er í einfaldari kanntinum en bara ágætis hversdags/kassavín.

Það hefur ljós-strágylltan lit og meðalopið nef þar sem finna má tóna af suðrænum Chardonnay í bland við feitan Viognier: ananas, sæt sítróna, apríkósa, perujógúrt og hvít blóm.

Í munni er það ferskt, meðalbragðmikið með góða sýru og mýkt en þar sem þetta er nú einu sinni vel heppnað markaðsvín fremur en persónulegt íhugunarvín þá er það hvorki flókið né endingarmikið. Þarna eru svo suðrænir ávextir, sæt sítróna, pera, nektarína og ananas. Alhliða hvítvín sem gott er að eiga í ísskápnum og sannarlega eitt besta hvítvínið úr kassa sem ég hef reynt á árinu. Ekki svo slæmt með hverdagslegum fiskréttum, ljósu pasta, bökum og ljósu fuglakjöti.

Verð kr. 5.799.- (um 1.400.- kr. pr. flaska) Frábær kaup.

Ég skrifaði í fyrra um árganginn 2011 (****) af þessu sama víni og eins hef ég skrifað um Badiola 2012 (****) og Castello di Fonterutoli (eina vínið sem fékk fullt hús stiga hjá mér á síðasta ári) frá sömu víngerð.
Árgangurinn 2012 er að mínu viti enn betri og fínlegri en árgangurinn 2011 var í fyrra en til að gæta fyllstu sanngirni þá eru þetta vín sem hafa langan líftíma og geta hæglega bætt við sig hinum og þessum víddum á nokkrum mánuðum svo það væri gaman að dæma árganginn 2011 aftur núna.

Þetta vín hefur dimm-fjólurauðan lit og meðalopna angan sem er þétt, dökk yfirlitum og ungleg en þarna eru áberandi eik, sultuð rauð og dökk ber, leður, lakkrís, læknastofa (og ég er ekki frá því að þarna slæðist inn linoleumgólfdúkur), kirsuber, Mon Chéri-molar og balsam.

Í munni er það vel bragðmikið, þétt, þurrt, dimmt og unglegt með töluverða sýru og mikil mjúk tannín sem tryggir mikla endingu (og líftíma í flösku). Það hefur glefsur af krækiberjasultu, kirsuberjum, lakkrís, súkkulaði, vanillu, plómu, balsam og þurrkuðum appelsínuberki. Þrátt fyrir stærðina er það fínlegt og fágað og þarna er maður að fá mikið fyrir aurana. Hafið með bragðmeiri og fínni steikum, nauti og lambi. Grilluð hrossalund og þetta hérna er ekkert slor, skal ég segja ykkur.

Verð kr. 3.495.- Frábær kaup.

Ólíkt flestum skilgreindum vínum í Evrópu er Cava ekki landfræðilega afmarkað (landfræðileg afmörkun er nánast alltaf grundvöllur vína innan Evrópu og reyndar víðasthvar í heiminum) heldur aðferð og því má tilaðmynda finna Cava í Rioja og Navarra þótt lang-lang stærstur hluti þeirra sé framleiddur og Katalóníu og þar má segja bærinn Sant Sadurní d’Anoia í Penédes sé hjarta Cava gerðarinnar á Spáni. Þessi freyðivín eru gerð með hefðbundinni Kampavíns-aðferð og aðallega eru notaðar þrúgurnar Macabeu, Parellada og Xarel-lo en nú á dögum má einnig nota þrúgurnar Chardonnay, Pinot Noir og Subirat (öðru nafni Malvasia), annaðhvort í bland við hinar fyrrnefndu eða jafnvel bara einar og sér.

Þetta frábæra Cava er gert að jöfnum þriðjungum úr Macabeu, Parellada og Xarel-lo en að tíunda hluta úr Chardonnay og hver svo sem skýringin er þá er þetta sennilega eitt besta Cava sem ég hef smakkað í langan tíma.

Það hefur ljós-gylltan llit og meðalfínlegar loftbólur og í nefinu er sætur gerjunarilmur í bland við epli, sítrónu, kalk, bakarí og hvít blóm.

Í munni er það þurrt með meðalfyllingu, flotta og frískandi sýru og glefsur af sítrónu, eplum, peru, grænum grösum, apríkósu og niðursoðnum mandarínum. Þetta er léttleikandi og sumarlegt vín sem hefur einnig góða lengd og gott eftirbragð sem gerir það sérlega hentugt sem fordrykkur á heitum sumardögum en það er einnig hægt að para það við allskonar létta forrétti og puttamat. Ef einhver myndi vilja giftast mér myndi ég hafa þetta í brúðkaupinu.

Verð kr. 1.990.- Frábær kaup.

Enn á ný er ég að benda ykkur á eitt af þessum frábæru rauðvínum frá Portúgal sem eru kærkomin viðbót við þá flóru sem hefur þrifist hér fram að þessu. Þetta er sett saman úr þrúgunum Aragonez (sumsé Tempranillo), Trincadeira, Cabernet Sauvignon og Alicante Bouschet.

Það er dimmfjólurautt á lit með dökka, þurra og jarðbundna angan þar sem finna má dökk sultuð ber (helst bláberjasultu), kakó, lakkrís, þurrkaða ávexti, eik, mómold, karamellu og pipar. Að einhverju leyti er þetta í ætt við stóru vínin frá Bordeaux en að öðru leyti er þetta afar sérstæður og upprunalegur ilmur.

Í munni er það þurrt, dimmt og þétt með mikið af mjúkum tannínum, mikla fyllingu og fína sýru sem vinnur vel með þessum sólþroskaða ávexti. Þarna má finna dökk ber, sprittlegin kirsuber, vanillu, kakó, lárviðarlauf og tímjan. Framúrskarandi skemmtilegt og gegnheilt vín sem þarf bragðmikinn mat til að hafa með. Grillaðar nautasteikur, bragðmiklir og hægeldaðir pottréttir koma vel til greina.

Verð kr.4.416.- Mjög góð kaup.

Þetta vín er gamall kunningi sem ég hef oft mælt með, bæði í rituðu máli og töluðu, enda ótrúlega vel samsett vín fyrir tiltölulega lítinn pening. Það hefur dimman fjólurauðan lit og í nefinu má finna rauð og dökk, sultuð ber, lyng, banana, þurrkaða ávexti, rabbarbarasultu og það er ekki alveg frítt við að alkóhólið sleppi full auðveldlega frá ávextinum.

Í munni er það nokkuð bragðmikið, sætkennt af sólríkum dögum á Íberíuskaganum en samt sem áður þurrt og með góða sýru og töluverð tannín sem eru að mestu leyti mjúk. Þarna eru sultuð hind- og kirsuber, krækiberjahlaup, bláberjasulta, lakkrís, þurrkaðir ávextir og sveitalegir jarðartónar. Ferlega vel gert og matarvænt vín sem er gott með bragðmeiri Miðjarðarhafsmat, allskonar kjötkenndum pottréttum og grillmat.

Verð kr. 1.828.- Frábær kaup.

Subcategories