Þessi fíni kassi er á ábyrgð Montecillo (sem er svo í eigu sérrí-fjölskyldunnar Osborne) en er ekki frá Rioja heldur Tierra de Castilla. Það er úr helstu spænsku gæðaþrúgunni Tempranillo, er eikað í 10 mánuði, sem gerir það afar matarvænt.

Það hefur rétt ríflega meðaldjúpan kirsuberjarauðan lit og nefið er meðalopið með glefsur af sultuðum kræki- og kirsuberjum, bláberjum, eik, Mon Chéri-molum og leirkenndri jörð.

Það er rétt ríflega meðalbragðmikið með ágæta fyllingu (alkóhólið er kannski aðeins of áberandi), góða sýru og mjúk tannín. Það hefur glefsur af kræki-, hind- og kirsuberjum, bláberjum, vanillu og sveitalegum jarðartónum. Vel gert og neysluvænt og er fínt með allskyns kjötkenndum hversdagsmat, pasta og pottréttum og solleis.

Verð kr. 5.999.- Mjög góð kaup.

Hver á fætur öðrum eru vínframleiðendur að taka upp lífræna víngerð og svara þannig kalli samtímans um heilbrigðari landbúnað sem byggir á hefðbundnum aðferðum. Einn þessara er Perrin-fjölskyldan í Chateau Beaucastel í Chateauneuf-du-Pape og þetta vín er bara prýðisgott, sett saman úr Grenache og Syrah.

Það hefur þéttan og ríflega meðaldjúpan, fjólurauðan lit með þéttan kannt og sveitalegan ilm þar sem einnig eru bróm- og krækiber, pipar, lakkrís, sultuðu kirsuber og lyng. Það virkar nokkuð alkahólríkt í nefi sem dregur aðeins úr gæðunum.

Í munni er það þurrt með töluverð tannín og áberandi sýru en jafvægið er sérlega gott og það lifir vel og lengi í munni. Þarna má finna brómber, pipar, lakkrís og lyng. Fremur dökkt yfirlitum verð ég að segja sem gerir það sérlega matarvænt. Hafið með góðum Miðjarðarhafsmat, grilluðu kjöti og þess háttar.

Verð kr. 2.667.- Mjög góð kaup.

Við ættum auðvitað að hafa austurrísk vín miklu oftar í glasinu en einhverra hluta vegna hefur það gengið frekar illa að fá Íslendinga til að drekka góð vín frá Austurríki. Sumpart vegna þess að úrval þeirra er afar takmarkað (en úrval í vínbúðunum er ykkur neytendum að kenna, hafið það í huga).
Austurríki á nokkrar einkennisþrúgur og þeirra þekktust er án vafa sú hvíta Grüner Veltliner sem getur við góð skilyrði gefið af sér einhver mest spennandi hvítvín sem finna má í þessari ágætu veröld.

Hubert Sandhofer hefur átt vín hér í vínbúðum í nokkur ár og það er gleðiefni að nú skuli fást aftur tvö vín frá honum. Hann gerir sín vín innan hins skilgreinda víngerðarsvæðis Burgenland Neusiedlersee og ég er bara nokkur ánægður með það.

Það hefur ljós-strágulan lit og rétt tæplega meðalopna angan af sítrónu, steinefnum, pipar, gulri melónu, jasmín, mjöli og grænum grösum. Þetta er ilmur sem minnir dálítið á Chablis.

Það er þurrt í munni með góða sýru og fínt jafnvægi. Það er meðalbragðmikið og lifir vel, er ferskt og létt með keim af sítrónu, mjólkursýru (helst að gamla góða KEA-skyrið komi upp í hugann), peru, blóðappelsínu, melónu og pipar. Líklega besta útgáfa af þessu víni frá Hubert sem ég hef smakkað hingaðtil. Hafið með salötum, allskonar fiskréttum, ljósu pasta og bara eitt og sér. Vín úr Grüner Veltliner eru að jafnaði afar fjölhæf með mat. Ekki spillir að myndin á miðanum er eftir íslensku listakonuna Kristínu Gunnlaugsdóttur.

Verð kr. 2.326.- Mjög góð kaup.

Finca La Colonia er ódýrasta og einfaldasta vínið frá víngerðinni Bodegas Norton í Mendoza í Argentínu og hvernig sem ég leitaði á flöskunni fann ég ekki árganginn skráðan (vona þá að réttir aðilar leiðrétti mig en vínið getur tæpast verið eldra en 2014 hvort eð er).

Það er gul-grænt að lit með meðalopna og frekar evrópskan Sauvignon Blanc ilm, þótt örlitlir austurlenskir tónar slæðist þarna inn. Þar má greina peru, sítrónu, læm, rifsber, ananas, hvít blóm, nektarínu, guava og steinefni. Fersk, sumarleg og spennandi angan.

Í munni er það þurrt og sýruríkt í góðu jafnvægi og afar aðgengilegt þótt það sé ekki mjög flókið. Þarna er sítróna, læm, pera, ananas, steinefni. rifsber og apríkósa. Það er evrópskt í stíl, matarvænt og sumarlegt. Hafið með ljósu kjöti, meðalbragðmiklum fiskréttum, salötum, geitaosti og svo er ekkert mál að hafa það sem fordrykk.

Verð kr. 2.395.- Mjög góð kaup.

Ég hef sagt það hér áður og ætla að endurtaka það: Sauvignon Blanc frá Montes eru einhver traustustu kaup sem hægt er að gera. Þetta er kannski ekki flóknasta og stærsta vínið sem er í boði, en þegar velja skal ljúffengt hversdagsvín kemur það sannarlega til greina.

Það hefur strágulan lit með grænum tónum og meðalopna, dæmigerða angan af suðrænum Sauvignon Blanc; sítrus, kramin sólberjalauf, hvít blóm, stikilsber, læm, leirkennd jörð og austurlenskir ávextir.

Það er rétt ríflega meðalbragðmikið með góða sýru, gott jafnvægi og endist alveg sæmilega lengi án þess að vera neitt tiltakalega flókið. Þarna má finna stikilsber, sítrónu, læm, austurlenska ávexti (papaya og mangó) og peru. Matarvænt, stílhreint og vel gert hvítvín sem er fínt með allskyns ljósu kjöti, bragðmeiri fiskréttum, geitaosti og salötum.

Verð kr. 1.899.- Frábær kaup.

San Antoni-dalurinn er ekki eins þekkt víngerðarsvæði og Casablanca, til að mynda, en sá fyrrnefndi er rétt suður af þeim síðarnefnda og nær ströndinni enda eru aðstæður þarna góðar til að rækta þrúgur sem þurfa tempraðra loftslag svo sem Chardonnay, Sauvignon Blanc og Pinot Noir. Þetta er lífrænt vín frá hinni afbragðsgóðu víngerð Cono Sur og er skemmtileg viðbót í flóru þeirra hér á landi.

Það hefur strágulan lit með grænni slikju og rétt meðalopna angan af rifsberjum, stikilsberjum, sólberjalaufi, sítrus, ananas, hvítum blómum og mjög þroskuðu guava.

Í munni er það meðalbragðmikið með töluverða sýru og ágæta fyllingu. Það má finna glefsur af sítrónu, greipaldini, stikilsberjum, sólberjum og austurlenskum ávaxtakokteil. Ljúft, sumarlegt og ferskt hvítvín sem er gott eitt og sér en líka með allskonar fiskréttum, bökum, léttum forréttum og geitaosti.

Verð kr. 2.190.- Frábær kaup.

Þessi ágæti Chianti hefur rétt tæplega meðaldjúpan, granatrauðan lit og tæplega meðalopna angan af rauðum berjum, sultuðum dökkum berjum, leðursófa, möndlumassa, lakki og Mon Chéri-molum. Þetta er dæmigerður ilmur en alkóhólið sem sleppur út dregur hann ögn niður í gæðum.

Í munni er það meðalbragðmikið, þurrt og sýruríkt með mjuk tannín og fremur einfalt bragð af kirsuberjum, krækiberjum, möndlumassa og vanillu. Ágæt lengd og frískleg sýra halda þessu víni á lofti og gera það afar heppilegt með allskyns pastaréttum í dekkri kanntinum, rauðu og ljósu kjöti og ýmsum öðrum Miðjarðarhafsmat.

Verð kr. 2.564.- MJög góð kaup.

Hér er afar skemmtilegt hvítvín frá Portúgal á ferðinni, sett saman úr þrúgum sem engin veit um nema einhverjir víngerðarmenn í Alentejo: Arinto, Antâo Vaz og Roupeira og útkoman er mjög áhugaverð.

Það hefur strágulan lit með grábleika tóna og meðalopna angan af hvítum blómum, apríkósum, mandarínu, jörð, kryddjurtum, melónu og peru. Þetta er sætkenndur, feitur og svolítið Alsace-legur ávöxtur.

Í munni er það meðalbragðmikið, með góða sýru, töluverða fitu og endist vel. Þarna eru perur, apríkósur, melónur og grænar kryddjurtir. Hafið með ljósu kjöti, bragðmeiri og feitum fiskréttum og allskyns bragðmeiri forréttum.

Verð kr. 2.899.- Mjög góð kaup.

C21 þýðir víst Cepa 21 eða „vínviður 21“ og á að draga fram þá kosti að vínið sé bæði hefðbundið og framúrstefnulegt (21 er víst 21. öldin eftir því sem ég kemst næst). Það er Emilio Moro-fjölskyldan sem ber ábyrgð á þessu víni og kannski þekkja mörg ykkar nú þegar önnur vín frá honum sem fást í vínbúðunum. Þetta ágæta vín kemur einnig frá vínræktarsvæðinu Ribera del Duero er gert úr Tinto Fino sem fleiri þekkja kannski sem Tempranillo. Það er þroskað í bandarískum og frönskum eikartunnum einsog tískan kveður á um

Það hefur dimman, plómurauðan lit og meðalopna angan þar sem finna má rauðan, sultaðan ávöxt í bland við dökk ber, sultuð aðalbláber, vanillu, lakk, plómu og lakkrís. Í munni er það unglegt, þurrt og þétt með töluvert magn af fínlegum tannnínum, hefur góða lengd og afar gott jafnvægi. Þarna eru dökk og rauð sultuð ber, vanilla, stál og kakó. Ég held að öllum muni líka vel við þetta vín, það einhvernveginn smellur alveg við smekk flestara Íslendinga. Hafið með allskonar bragðmeiri kjötréttum, grilluðu lambi eða nauti. 

Verð kr. 2.499.- Mjög góð kaup.

Ég hef alltaf verið hrifinn af Verdicchio, þessu ljúfa hvítvíni frá Adríahafsströnd Ítalíu og sakna þess að nú fæst tildæmis ekki lengur það góða vín frá Umani Ronchi. Þetta vín gefur því reyndar lítið eftir og er að auki lífrænt ræktað sem ekki ætti að spilla.

Það hefur strágylltan lit og þurrt og jarðbundið nef sem er svolitla stund að opna sig og allsekki drekka það of kalt. Gott hitastig er 13-15° Þið verðið bara að trúa mér. Þarna fá finna sítrónu, sítrónumelissu, melónu, mjólkurfitu, hvít blóm, rykuga jörð, pipar, blautt mjöl og græn kryddgrös. Flókin og skemmileg angan.

Í munni er það þurrt, þétt og jarðbundið og minnir að einhverju leyti á Chablis í stíl með sínar fínlegu og sýruríku bragðglefsur. Þarna má finna sítrónu, greipaldin, mandarínur, steinefni, hunang og melónu. Tekur svolitla stund að opna sig einsog góðra vína er siður, svo þið skulið ekki flýta ykkur að skola því niður. Hafið með allskonar fiskréttum kannski ekki of feitum, skeldýrum, ljósu pasta og forréttum.

Verð kr. 2.895.- Mjög góð kaup.

Subcategories