Ég hef áður skrifað um Portrait Shiraz 2010 (****) og þetta vín er litlu síðra með skýr Áströlsk einkenni og þann ljúffengleika sem einkennir vínin frá Lehmann. Það er gert áður en Peter lést árið 2013 og er sennilega að komast á toppinn í þroska án þess að vera nokkuð á niðurleið, síður en svo.

Það hefur mjög þéttan og múrsteinsrauðan lit og meðalopna angan af mintu, fjólum, sólberjahlaupi, rommsúsínum, rauðum sultuðum berjum og kirsuberjagospillu (man einhver eftir þeim?).

Það er þurrt með góða sýru, mjúk tannín og er ríflega meðalbragðmikið og töluvert langt. Þar má greina sultuð bláber, sólberjahlaup, kakó, vanillu og mintu. Vín einsog margir Íslendingar elska; sætkennt og dálítið álkóhólríkt. Hafið með bragmeiri kjötréttum, lambi sérstaklega.

Verð kr. 2.599.- Mjög góð kaup.

Ég hef áður skrifað um Syrah í þessari sömu línu (***1/2) og þetta vín er ekki ósvipað að gæðum. Það hefur ljós-gylltan lit og ilm af suðrænum Chardonnay: sæt eplabaka, niðursoðin pera, ananas, sætur sítrus, blautt mjöl, gúmmíbangsar og mjólkurfita.

Í munni hefur það góða sýru, fínasta jafnvægi og frísklegt og sumarlegt bragð. Þar má finna sætan sítrus, græn epli, peru, læm, ananas og jógúrt. Skemmtilegt en hversdagslegt vín sem fer vel með allskonar forréttum, nokkkuð bragðmiklum fiskréttum og ljósu fuglakjöti.

Verð kr. 1.999.- Mjög góð kaup.

Ég skrifaði um daginn um rauðu útgáfuna af þessu víni (Qatro Castas ****1/2) en þetta er sama víngerð og ber ábyrgð á Alandra, Monthe Velho og Defesa, allt frábær vín sem gefa mikið fyrir aurana.

Þetta er sett saman úr þrúgunum Gouveio og Antão Vaz og hefur daufgylltan lit. Það er vel opið í nefi með sérstæðan ilm (merkilega persónuleg alltaf þessi portúgölsku vín) af steinefnum, sítrus, melónu, peru, fitu, jógúrt, eplum, blautu mjöli og kryddjurtum einsog fennel, esdragon og kerfil.

Í munni er það þurrt, sýrumikið og þétt með langavarandi og sérstætt bragð sem ég kann amk vel að meta. Þarna eru heilmikil steinefni, sítrus, greipaldin, læm, austurlenskir ávextir, þurrkaðar apríkósur, mandarínur, fennel, kínin og kókos. Frábært vín sem er gott með bragðmiklum fiskréttum, ljósu fuglakjöti, bragðmiklum forréttum og krydduðum mat.

Verð kr. 2.998.- Mjög góð kaup.

Dr. Loosen er sannarlega einn af betri framleiðendum í Móseldalnum og hann ber einnig ábyrgð á vínum eins og Villa Wolf frá Pfalz sem eru þurrari og „nútímalegri“ en það sem hann gerir í Móseldalnum. Þetta er einmitt frá Mósel, með skýr upprunaeinkenni og afar ljúffengt.

Það er ljós-strágult að lit með örlítilli kolsýru og angan af eplum, sítrónu, sætum blómum (fresíum) og örlítilli fitu en tilaðmynda er ekki mikið um steinefni í því, sem oft má finna í Riesling frá þessum slóðum.

Í munni er það þálfþurrt (eða á maður að segja hálfsætt?) með mikla og ferska sýru, létt- og glæsileika og jafnframt langt og ljúft bragð sem á að koma öllum í sumarskap. Þar má greina sítrónu, epli, steinefni og vínber (merkilegt nokk!). Hafið eitt og sér núna þegar meðalhiti landsins er kominn í tveggja stafa tölur eða með asískum fiskréttum, bökum og léttum forréttum.

Verð kr. 1.750.- Frábær kaup.

Þetta vín kemur frá Púglíu á suður-Ítalíu, er blandað úr þrúgunum Merlot og Primitivo og hefur meðaldjúpan plómurauðan lit og býsna þéttan kannt (ekki undarlegt með þessar tvær þrúgur). Í nefinu er það tæplega meðalopið, sætkennt og dálítið alkóhólríkt með glefsur af sultuðum rauðum og dökkum berjum, þurrkuðum ávöxtum, lakkrís og heybagga.

Í munni er það rétt ríflega meðalbragðmikið með þétt tannín (svolítið græn) sætan ávöxt og sýru rétt undir meðallagi. Þarna má finna rauð og dökk sultuð ber, plómur, jörð og þurrkaða ávexti. Það er dálítið extrakterað og einfalt en ekki slæmt hversdagsvín sem er líklega best með bragðmeiri Miðjarðarhafsmat, pottréttum og þannig.

Verð kr. 1.799.- Góð kaup.

Þetta er lífrænt vín frá hinni vel þekktu ítölsku víngerð Tommasi og er blandað úr þrúgunum Sangiovese og Merlot. Það hefur meðaldjúpan kirsuberjarauðan lit og rétt tæplega meðalopna angan af rauðum sultuðum berjum, pipar, leðri, bláberjum, plómu og lakkrís.

Í munni er það rétt meðalbragðmikið, þurrt og með mjúk tannín og sýran má ekki vera minni enda raknar það dálítið snögglega upp. Þarna eru krækiber, jarðarber, hindber, plóma og lakkrís. Hafið með meðalbragðmiklum pastaréttum, rauðu, en ekki of bragðmiklu kjöti, pottréttum og ljósu fuglakjöti.

Verð kr. 2.599.- Góð kaup.

Ég hef verið afar ánægður með Adobe, hina lífrænu línu frá Emiliana og þau öll (Chardonnay, Sauvignon Blanc, Cabernet Sauvignon) hafa fengið þrjár og hálfa störnu sem er býsna gott miðað við verð. Og þetta vín sem kemur frá Colchagua er engin undantekning.

Það hefur vel þéttan, plómurauðan lit og dæmigerðan ilm af plómu, brómberjum, bláberjasultu, lakkrís, rauðum sultuðum berjum, stáli og papriku. Í munni er það þurrt og þétt með fína sýru og ágætt jafnvægi þótt það sé hvorki fókið né stórt. Þarna má greina bláberjasultu, ryk, græna papriku, lakkrís og rauð ber. Tannín eru svolítið græn en það er svosem ekkert óeðlilegt á Carménere í einfaldari kanntinum. Hafið með rauðu kjöti, pottréttum og bragðmeiri hversdagsmat.

Verð kr. 1.999.- Mjög góð kaup.

Þetta er enn eitt af þessum frábæru portúgölsku vínum sem eru að birtast í hillum vínbúðanna þessi misserin og ég skora á ykkur að missa ekki af þeim. Það kemur frá víngerðinni Herade de Esporão í Alentejo og er sett saman úr þrúgunum Aragonez (betur þekkt sem Tempranillo), Tinta Miuda, Tinta Caida og Alfrocheiro. 

Það er nokkuð opið í nefinu með afar sésrtæðan ilm sem ætti að heilla alvarlega vínnörda og ég skil vel að lesendur botni hvorki upp né niður í þessari upptalningu en þetta er það sem ég skrifaði orðrétt í smakkskýrsluna: foie gras, brenndur viður, karamella, grilluð græn paprika, hrátt kjöt, dökk ber, karob, plóma og mómold. Jahá! Prófið bara sjálf.

Í munni er það vel bragðmikið með töluverða sýru, þétt mjúk tannín, áberandi fyllingu og afar góða lengd. Það er þurrt og þétt og bragðið er örlítið kunnuglegra en það er í nefinu og þar á finna dökk ber, kirsuber, lakkrís, kakó, þurrkaðan appelsínubörk og soðnar sveskjur. Minnir að einhverju leyti á þurrt púrtvín. Hafið með bragðmiklum steikum, grill væri gott með því.

Verð kr. 3.598.- Mjög góð kaup.

Öll vínin úr Bicicleta-línunni frá Cono Sur eru góð og sum alveg frábær miðað við verð. Þetta vín er ljós-gyllt að lit og hefur nokkuð dæmigerðan, sætkenndan ilm af suðrænum Chardonnay; pera, melóna, sætur sítrus, hvít blóm, ananas, soðin epli og fita. 

Í munni er það meðalbragðmikið með sætan ávöxt en mætti gjarnan hafa örlítið meiri sýru mín vegna en mörgum mun sjálfsagt finnast að vínið sé afar mjúkt og gómgælandi. Þarna eru perur, melóna, austurlenskir ávextir og rautt greipaldin. Hafið með ljósu fuglakjöti, bragðmeiri fiskréttum, bökum og þannig mat.

Verð kr. 1.876.- Frábær kaup.

Ég vil gjarnan að lesendur mínir séu duglegri við að versla sér góðan Riesling því þrúgan er sannarlega ein sú besta sem finna má. Og þá er ég að tala um alvöru góðan Riesling. Þessi kemur frá Alsace þar sem stíllinn er jafnan feitari og stærri en handan Rínarfljótsins (þótt með hlýnandi loftslagi og breyttum neysluvenjum hafi hinn þýski Riesling færst að mörgu leyti nær hinum franska, svona almennt séð). Vínið er gyllt með grænum tónum og dæmigerðan ilm af hvítum blómu, eplum, sítrónu, peru, jasmín og jörð.

Það hefur töluverða sýru (helsti kostur og einkenni Riesling) er þurrt og rismikið en jafnframt með fallegt fitulag utan á þessum vel vaxna kroppi. Þarna má finna sítrónu, peru, greipaldin, græn epli og rifsber. Það endist vel og hefur fínt jafnvægi. Hafið með allskyns vatnafiskum, bökum, ljósu fuglakjöti og asískum mat. Riesling er afar matarvæn þrúga.

Verð kr. 2.699.- Mjög góð kaup.

Subcategories