Ég er afar hrifinn af Marques de Casa Concha Cabernet Sauvignon (2011 fékk hérna hjá mér ****1/2) og þótt þessi chileski Pinot Noir sé prýðilegur er hann tæpst í sama flokki og hið fyrrnefnda vín. Það hefur tæplega meðaldjúpan kirsuberjarauðan lit og í nefinu má finna jarðarber, hindber, sprittlegin kirsuber, vanillu, ryk og sveitalegar glefsur. Alkóhólið er ögn áberandi í upphafi en það rýkur fljótt úr og það er því ekki vitlaust að umhella því.

Í munni er það rétt ríflega meðalbragðmikið með góða sýru þótt mér finnist ávöxturinn aðeins of extrakteraður og sætur (sem ekki er óalgengt í suðrænum Pinot Noir). Þarna má finna jarðar- og hindber, morello-kirsuber, eik, karamellu, þurrkaðan appelsínubörk og svart te. Hafið með fuglakjöti einsog önd í appelsínusósu eða sæmilega bragðmiklum steikum og þetta gæti gengið með laxi í austurlensku samhengi.

Verð kr. 2.999.- Góð kaup.

Þessi ágæti Chardonnay sem kemur frá Casablanca-dalnum vestan við Santiago í Chile hefur gylltan lit meðalopna angan. Vínið er ögn eikað einsog finna má og hefur að auki feitan keim eftir maló-laktíska gerjun sem verður þó aldrei of yfirþyrmandi. Þarna má finna niðursoðna peru, sæta sítrónu, vanillu, eplapæ, passjón, mangó og guava. Þarna eru líka smjör og reykur og í heild sinni má helst benda á vín frá Mâcon eða Rully sem fyrirmynd.

Í munni er það rétt ríflega meðalbragðmikið með töluverða frískandi sýru, fínasta jafnvægi og prýðilega endingu. Það má greina í því glefsur af sætri sítrónu, niðursoðinni peru, eplaböku, eik, reyk, ananas, gauva, passjón, pipar og rauðu greipaldini. Fínasta vín sem er gott með bragðmeiri og feitari fiskréttum, ljósu fuglakjöti og allskonar forréttum.

Verð kr. 2.595.- Mjög góð kaup.

Þetta er bara dáldið mikið gott vín og er einmitt ágætt til að færa í sönnur hversu góður árgangur getur skipt miklu máli á svæði einsog Rioja. Það er blandað úr þrúgunum Tempranillo, Graciano og Mazuelo og þroskað í eikartunnum í eitt og hálft ár. Það hefur meðaldjúpan, kirsuberjarauðan lit og nokkuð dæmigerðan ilm af Rioja-víni (þá er ég að tala um gamla stílinn) þar sem finna má dökk og rauð ber, plómu, krydd, vindla, sveit, mjúka bandaríska eik og vanillu.

Það er meðalbragðmikið með góða sýru, þétt, mjúk tannín, fínt jafnvægi og töluverða endingu. Það er komið með þroska en er jafnfram ungt og á eftir mörg ár af áhyggjulausu lífi. Þarna má finna kirsuber, hiindber, krækiber, plómu (sumt af þessu er sultað og annað ekki), vanillu, jörð og krydd. Það hefur mýkt og glæsileika sem hrifur alla með sér. Hafið með lambi og nauti en það er reyndar afar fjölhæft og gengur með allskonar mat.

Verð kr. 2.450.- Frábær kaup.

Víngerðin Herdade do Esporão í Alentejo ber einnig ber ábyrgð á þeim frábæru vínum sem ég hef áður skrifað um, Alandra og Monte Velho (rauðum og hvítum) en að þessu sinni er þetta rauðvín blandað úr þrúgunum Touriga National og Syrah.

Það hefur djúpan og þéttan, rauðfjólubláan lit og unga og meðalopna angan af rauðum berjum, sultuðum dökkum berjum, sveit, pipar, lakkrís, leirkenndri jörð, eikartunnu og hrágúmmíi. Í munni er það bragðmikið og ungt með ferska og áberandi sýru, þétt mjúk tannín og langvarandi bragð. Þarna eru glefsur af rauðum berjum, lakkrís, bláberjasultu, þurrkuðum appelsínuberki, sprittlegnum kirsuberjum, plómu og tunnu. Stórskemmtileg, sérstætt og matarvænt rauðvín sem er fínt með allskonar mat, rauðu kjöti og saltfisk svo dæmi séu tekin.

Verð kr. 2.998.- Frábær kaup.

Þessi stráguli Chardonnay frá Suð-Austur Ástralíu er meðalopinn í nefinu með dæmigerðan keim af suðrænum Chardonnay; perubrjóstsykri, sætum sítrustónum, eplaböku, melónu og læm en einnig kryddaðri glefsum einsog estragon og agúrku Þarna er smá eik, en sem betur fer ekki of mikil í svona einföldu víni.

Það er meðalbragðmikið, hefur góða og ferska sýru en fremur stutta og halaklippta endingu sem dregur það niður en meðan það varir má finna sítrónu, peru, melónu, rautt greip og eikartóna. Ágætis hversdagsvín en dálítið augljóst að hér er um að ræða hannað lífstílsvín fyrir breska súpermarkaði. Hafið með ljósu kjöti og bragðmeiri fiskréttum, salötum og ljósum forréttum.

Verð kr. 1.999.- Sæmileg kaup.

Domaine Laroche Chablis Premier Cru Les Vaudevey

Laroche er ákaflega traustur framleiðandi í Chablis (og hann er reyndar með allskonar vín útum allar jarðir, í Languedoc og Chile svo einhver séu nefnd) og hans bestu vín eru sannarlega fimm stjarna (smakkaði Grand Cru Blanchots 2008 um daginn og það var framúrskarandi gott). Þetta vín hefur verið til í hillum vínbúðanna síðan á síðustu öld og er alltaf athyglinnar vert.

Það er gyllt að lit með meðalopna angan þar sem hægt er að rekast á sítrónu, hunang, epli, kalk (eða töflukrít öllu heldur), smjör og hvít blóm. Í munni er það meðalbragðmikið, mjúkt en með flotta sýru og góða endingu. Það er dæmigert og fínlegt og þarna má finna sítrónu, mandarínu, steinefni, peru, fitu og gul epli í lokin. Hafið með fiski og ljósu kjöti, hvítmygluostum og léttari forréttum.

Verð kr 4.445.- Ágæt kaup.

Subcategories